
Inngangur
Ísetning glugga og hurða
Vandaður undirbúningur er lykillinn að öruggri ísetningu glugga og hurða
Það skiptir sköpum að vanda til verka við ísetningu glugga og hurða hvort sem um er að ræða nýbyggingar eða endurnýjun í eldri húsum.
Allir sem koma að verkinu frá hönnuðum til iðnaðarmanna bera ábyrgð og þurfa að búa yfir þekkingu og færni til að tryggja vandaða framkvæmd.
Daglegar fréttir um leka, raka og myglu í byggingum sýna að enn er langt í land með að allir standi undir þeirri ábyrgð sem verkið krefst.
Hlutverk hönnuða, iðnmeistara og iðnaðarmanna
-
Hönnuðir þurfa að hafa skýran skilning á loft- og rakaflæði, efnisvali og eðlisfræði byggingarefna.
-
Iðnmeistari sem ber ábyrgð á framkvæmdinni verður að kunna að lesa og túlka tækniupplýsingar sem fylgja efnum og lausnum og fylgjast með að iðnaðarmenn framkvæmi verkið með faglegum hætti.
Leiðbeiningar byggðar á reynslu og rökum
Á þessari síðu má finna leiðbeiningar um viðurkenndar ísetningaraðferðir sem byggja á eðlisfræðilegum forsendum og niðurstöðum úr skýrlsum 83 slagregnsprófana – aðferðir sem hafa verið notaðar í gegnum aldir, löngu áður en nútímaefni eins og þéttilistar komu til sögunnar.
Til að tryggja að verkið hafi tekist vel má beita slagregnsprófunum á byggingarstað og þannig framkalla íslenskt slagveður af verstu gerð – raunveruleg prófun sem staðfestir gæði framkvæmdarinnar.
Frá upphafi til enda – ábyrg framkvæmd
Að standa rétt að verki frá fyrstu skrefum til verkloka er besta trygging fyrir árangursrík kaup, ísetningu og notkun glugga og hurða til framtíðar.
Forsendur verklýsinga
Verklýsingarnar hér að niðan byggja á niðurstöðum úr 83 slagregnsprófunum sem framkvæmd voru í 30 byggingum þar sem prófaðir voru gluggar í nýbyggingum, við endurnýjun í eldri byggingum og í innfluttum timbureiningahúsum. Prófin voru framkvæmd frá febrúar 2021 til október 2025.
Einnig er stuðst við reynslu og þátttöku höfundar í sambærilegu verkefni árið 1991 þar sem helstu gluggaframleiðendur landsins tóku þátt ásamt Iðntæknistofnun, Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins og Iðnlánasjóði sem styrkti verkefnið og veitti þátttakendum lán.
Sjá nánar: https://timarit.is/page/1751407#page/n0/mode/2up






